Til baka

Viðtal við skipulagshönnuð 1. áfanga Kringlusvæðis og niðurstöður samráðs

12 nóvember 2024

Fyrsti áfangi íbúauppbyggingar á Kringlusvæðinu er skipulagður samkvæmt BREEAM Communities vistvottunarstaðlinum en staðallinn kveður á um ítarlegt samráð við nærsamfélagið og aðra hagsmunaaðila.

Fyrsti áfangi íbúauppbyggingar á Kringlusvæðinu er skipulagður samkvæmt BREEAM Communities vistvottunarstaðlinum en staðallinn kveður á um ítarlegt samráð við nærsamfélagið og aðra hagsmunaaðila. Með slíkt samráð að markmiði héldu Reitir í samvinnu við Reykjavíkurborg opinn kynningarfund á drögum að skipulagstillögu þann 14. maí 2024. Á fundinum var skipulagslýsing fyrir svæðið einnig kynnt. Í lok fundar var óskað eftir ábendingum úr sal og einnig voru þátttakendur beðnir um að svara spurningakönnun sem birt var á vef Reita. Hér að neðan má finna samantekt úr niðurstöðum spurningakönnunarinnar ásamt fundargerð íbúafundarins.

Morgunblaðið birti á dögunum viðtal við Sofiu Lundholm, höfund skipulagsins þar sem hún ræðir um skipulagstillöguna ásamt því að reifa þær breytingar sem gerðar voru á henni í kjölfar samráðsins. Hér eftir fer viðtalið sem birt var þann 7. nóvember 2025:

Hannaði nýja hverfið við Kringluna

-          Danski arkitektinn Sofia Lundeholm segir Kringlusvæði henta vel fyrir nýtt íbúðahverfi

-          Torg í miðju hverfinu mun tengja Kringluna og Hlíðarnar við hverfið og gæða það lífi

Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi fyrirhugaðrar uppbyggingar við Kringluna. Meðal annars er ekki lengur gert ráð fyrir 14 hæða turni á svæðinu.

Félagið Kringlureitur gerði fyrir hönd Reita samkomulag við Henning Larsen og THG arkitekta um þróun á 1. áfanga Kringlusvæðisins. Henning Larsen er höfundur deiliskipulagsins og naut við þá vinnu aðstoðar THG arkitekta. Henning Larsen, sem er ein þekktasta arkitektastofa Norðurlanda, er þekkt á Íslandi en hún hannaði Hörpu í samstarfi við Ólaf Elíasson og Háskólann í Reykjavík.

Íbúðum fækkað um 30

Skipulagssvæðið afmarkast af Kringlugötu, Listabraut og Kringlumýrarbraut en lóðarmörk til norðausturs eru hér um bil samsíða Sjóvarhúsinu. Gert hefur verið ráð fyrir að byggðir verði 6.200 fermetrar af atvinnuhúsnæði og að um 420 bílastæði verði í bílakjallara undir íbúðarhúsunum. Þá var gert ráð fyrri 450 íbúðum en nú er miðað við 420 íbúðir. Felur uppbyggingin meðal annars í sér að skrifstofuhús sem byggt var fyrir Morgunblaðið í Kringlunni 1 verður rifið en hluta af gamla prentsmiðjuhúsinu breytt í menningarhús.

Fyrri útfærsla var kynnt á opnum fundi í Kringlubíói í maí og var deiliskipulagstillagan svo auglýst opinberlega með athugasemdafresti í sumar sem leið.

Þeim áfanga er nú lokið og bíður lokatillaga nú umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs, að undagengnum samningum borgarinnar og Reita um innviðagjöld, og má sjá nokkrar þeirra teikninga hér á opnunni. Eins og sjá má er gert ráð fyrir blandaðri húsagerð.

Mikill kostur við svæðið

Sofia Lundeholm, aðstoðarhönnunarstjóri Henning Larsen og Yfirhönnuður skipulagsins, sýndi Morgunblaðinu skipulagssvæðið og útskýri megináherslurnar í hönnuninni.

Spurð hvaða tækifæri hún hafi séð segir Lundeholm að þegar svæði er þróað getistundum verið vandasamt að tengja það við nærliggjandi byggð og skapa mannlíf í almannarýmum.

“Það er mikill kostur við svæðið að það er við hliðina á Kringlunni sem margir heimsækja daglega. Við höfum því þegar mikið flæði fólks í gegnum svæðið sem styður við umbreytingu þess í lifandi nýtt hverfi sem allir borgarbúar geta notið,” segir Lundeholm.

Sækirðu í reynslu þína frá Danmörku?

“Já á vissan hátt. Einkum hvernig á að skapa vel heppnuð almannarými, sem finna má mjög góð dæmi um í Kaupmannahöfn. Innblásturinn kemur þó að mestu leyti frá Reykjavík. Við kynntum okkur bæði ný og gömul svæði í borginni til að sækja innblástur til að móta séreinkenni hverfisins.”

Skapa skjólgóð rými

Hvernig umbreytið þið svæðinu í lifandi hverfi með það í huga að hér er nokkuð þung umferð, að minnsta kosti við Kringlumýrarbraut?

“Við Höfum beitt margvíslegum aðferðum til að skapa rými sem eru varin fyrir hávaða og vindi og hefur það mótað hverfið. Allar íbúðirnar munu hafa kyrrláta hlið sem snýr að inngarði sem er varinn fyrir hávaða. Við höfum einnig mótað götur og almannarými til að skapa skjól og höfum í hönnunarferlinu notað vind-og hljóðlíkön til að sannreyna að það virki.”

Á kynningarfundinum í Kringlubíói í maí komu fram athugasemdir frá nágrönnum, meðal annars varðandi hæð bygginga. Hafið þið brugðist við athugasemdunum og breytt hæðinni?

“Það hafa verðið gerðar breytingar síðan fundurinn með nágrönnum var haldinn. Við höfum lækkað sumar byggingarnar til að tryggja til dæmis meira sólarljós í inngörðunum.”

Hversu háar verða byggingarnar sem snúa að Kringlumýrarbraut?

“Þær verða 6-8 hæðir.”

Hætt við 14 hæða turn

Eruð þið enn að ráðgera 14 hæða turn hér við gamla Morgunblaðshúsið?

“Nei. Það er búið að lækka hann on nú er hann aðeins níu hæðir.”

Þið voruð einnig að undirbúa menningarmiðstöð í gamla prentsmiðjuhúsinu?

“Já, menningarhús.”

Hvernig ætlið þið að tengja það við torgið?

“Menningarhúsið og torgið fyrir framan það verða hjarta nýja hverfisins og eru því mjög mikilvæg. Þau bjóða fólk velkomið og tengja hverfið betur við borgina. Gegna því mikilvæga hlutverki að láta fólk upplifa hverfið sem heildstætt en ekki aðeins safn íbúðarhúsa.”

Kaffihús við torgið

Sérðu fyrir þér að það verði veitingahús og verslanir á jarðhæðum allra bygginga við torgið?”

“Já, þeim hliðum sem munu snúa að torginu. Mikilvægustu rýmin snúa í suður. Við lögðum mikla vinnu í að móta skipulagið svo að þau rými myndu njóta sólar en vera varin fyrir vindi og hávaða. Þegar vel viðrar munu kaffihúsin og veitingahúsin geta boðið gestum að sitja utandyra.”

Á síðustu árum hafa nokkru sambærileg verkefni við þéttingu byggðar orði að veruleika á höfuðborgarsvæðinu. Hvað greinir ykkar hönnun frá þeim verkefnum?

“Við hófum verkefnið með því að skoða nýlega uppbyggingarreiti sem og eldri hluta Reykjavíkur. Við vildum læra af því góða og slæma til að skilja hvað hefur heppnast vel. Til dæmis skoðuðum við ný fjölbýlishús með inngörðum en sú húsagerð er ekki algeng í Reykjavík. Þegar við ræddum  við íbúa lærðum við að inngarðarnir væru nokkuð mikið notaðir sem sameiginleg rými en það styður við að skapa samfélag meðal íbúanna.

Úr því að inngarðarnir skýla líka vel fyrir hávaða ákváðum við að það væri góð húsagerð fyrir þetta svæði. Við vildum hins vegar einnig að yfirbragð hverfisins minnti á gömlu Reykjavík.” Segir Lundeholm og nefnir sem dæmi fjölbreytt göturými í gamla Grjótaþorpinu með óreglulegum strætum, hallandi þökum og gróðursælum reitum en skipulagið gefi húsunum mikil sérkenni.

Horft frá Hamrahlíð að Kringlureitnum

Vilja breytileika

Hvað um hönnun íbúða? Fjölskyldustærð hefur breyst og lífsvenjur fólks sömuleiðis.

“Það er hvorki mælt nákvæmlega fyrir um skipulag né stærð íbúða. Það á eftir að útfæra það í smáatriðum. Almennt vildum við þó breytileika í íbúðagerðum. Sumar stærri byggingarnar henta fyrir hefðbundnar íbúðir á meðan sum smærri húsin gætu verið eins og nokkurra hæða raðhús (e. townhouse) þar sem útbúa mætti útisvæði til einkanota. Eitt fjölbýlishúsið hefur verið hannað með smærri íbúðir í huga en hugmyndin er að íbúar muni geta deild rýmum með nágrönnum. En lokahönnunin verður útfærð þegar arkitektar teikna húsið.”

Ertu sannfærð um að arkitektar geti haf samfélagsleg áhrif?

“Tvímælalaust. Ég hef mikla trú á því. Því geri ég það sem ég geri.”

Hvers vegna?

“Vegna þess að ég sé það. Arkitektar verja miklum tíma í að kynna sér hverfi og borgarþróun og það verður ljóst hvers vegna sumir staðir eru betur heppnaðir en aðrir. Við erum undir áhrifum af umhverfi okkar. Umhverfið hefur til dæmis áhrif á hvernig við ferðumst og með því að beina fólki um vissar leiðir í gegnum borgir getum við haft áhrif á hversu oft fólk hittist og á í samskiptum. Við getum haft áhrif á hversu mikið við aðgreinum fólk eða sameinum það. Arkitektúr hefur líka áhrif á hvar fólk kýs að verja tíma sínum. Til dæmis skiptir miklu máli að skapa skjól (e. microclimate) til að fólk vilji koma þar við en ekki aðeins flýta sér í burtu,” segir Lundeholm.

Spurð hvað læra megi af skipulagsmistökum jafnt sem vel heppnuðum verkefnum í Kaupmannahöfn segir Lundeholm ótrúlegt hvað góð almennarými geti haft mikil áhrif á lífsverjur íbúa.

“Kaupmannahöfn hefur gengið í gegnum mikla umbreytingu sem hefur falið í sér að almannarými eru sett í forgang og það má tvímælalaust læra af þeirri vegferð.”

Sækja í hlýleg svæði

Spurð að lokum hvort ekki sé rétt að á tímabili hafi verið byggð stór fjölbýlishús í Kaupmannahöfn, sem voru hluti af uppbyggingu á félagslegu húsnæði, segir Lundeholm að það sé rétt en slík byggð er mjög frábrugðin fyrirhuguðu hverfi.

"Jú. Við höfum líka gengið í gegnum slík skeiði í Kaupmannahöfn. Það getur verð sérlega vandasamt að byggja slíkt húsnæði í norrænu loftslagi enda getur fjarlægð milli bygginga skapað vindasöm bersvæði. Við höfum tilhneigingu til að sækja í svæði þar sem við upplifum okkur örugg, svæði sem eru hlýleg og á mannlegum skala. Ef mynduðu eru of mikil bersvæði viljum við kannski ekki koma þar við.”

Svo að þú trúir því að umhverfið hafi slík sálræn áhrif á fólk?

“Já, tvímælalaust,” segir Sofia Lundeholm arkitekt að lokum.

Fleiri fréttir

Tilnefningarnefnd auglýsir eftir tilnefningum til stjórnar Reita

Aðalfundur Reita 2025 verður haldinn þann 2. apríl 2025.

Sterkur rekstur á fyrstu níu mánuðum ársins

Góður gangur var á vegferð félagsins í átt að vexti og félagið hefur fjárfest vel umfram sett markmið í arðsömum fasteignakaupum og uppbyggingarverkefnum.

Reitir er framúrskarandi fyrirtæki 2024. Níunda árið í röð
Reitir er framúrskarandi fyrirtæki 9. árið í röð

Reitir fasteignafélag hefur hlotið endurnýjaða viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki árið 2024.