Til baka

Reitir reisa hraðhleðslustöðvar í Hveragerði

26 mars 2025

Í Hveragerði er nú auðveldara en nokkru sinni fyrr að hlaða rafbíla á öruggan og hraðan máta eftir að Reitir settu upp hraðhleðslustöðvar í bænum. Nýjar hraðhleðslustöðvar eru liður í stefnu Reita að bjóða fjölbreyttar þjónustulausnir og taka virkan þátt í uppbyggingu í þágu samfélagsins.

Hraðhleðslustöðvarnar eru staðsettar á besta stað við Sunnumörk 1 í Hveragerði, sem er í eigu Reita og þar sem fjöldi verslana og þjónusta er einnig til staðar. Hleðsluafköst stöðvana er 240 kW með fjórum CCS tengjum og hver stöð getur þannig hlaðið allt að fjóra bíla samtímis. Auk hraðhleðslustöðvanna voru einnig settar upp átta venjulegar 22 kW hleðslustöðvar. Allar hleðslustöðvarnar eru aðgengilegar almenningi gegn gjaldi.

„Hveragerðisbær er á mikilli siglingu og hér er áberandi gæðauppbygging í byggða- og þjónustumálum. Hraðhleðslugarður er mikilvæg þjónusta við rafbílaeigendur og eykur enn á innviðastyrk samfélagsins. Við erum því afar ánægð með þennan áfanga og óskum Reitum til hamingju með framkvæmdina, sem fellur vel inn í lífsgæðahreiðrið hér í Hveragerði,“ segir Pétur G. Markan, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Grænir innviðir í alfaraleið

Hleðslustöðvar á vegum Reita er liður í vaxandi framboði þjónustulausna félagsins. Reitir setja upp hleðslustöðvar í eða við fasteignir félagsins sem eru víða á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Með þessu koma Reitir til móts við eftirspurn leigutaka um slíka innviði en félagið mun einnig setja upp hleðslustöðvar á fjölförnum stöðum í alfaraleið og taka þannig þátt í uppbyggingu í þágu samfélagsins, og auðvelda fleirum að ferðast með rafbílum um land allt.

„Reitir leggja ríka áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu, og nýlega höfum við lagt kraft í að auka þjónustuframboð sem gagnast bæði leigutökum og samfélaginu. Með hraðhleðslustöðvum mætum við aukinni þörf fyrir rafhleðsluinnviði á fjölförnum leiðum um landsbyggðina og styðjum við umhverfisvænni samgöngur. Staðsetning stöðvanna í Hveragerði er einstaklega hentug fyrir bæði íbúa og þau sem eiga ferð um en stöðvarnar eru í nánd við ýmsa þjónustu og verslun í bænum,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Ísorku sem sér um rekstur stöðvanna, og Orkusjóð.

Fleiri fréttir

Ársskýrsla 2024 er komin út

Ársskýrsla Reita vegna ársins 2024 er komin út.

Tilnefningarnefnd auglýsir eftir tilnefningum til stjórnar Reita

Aðalfundur Reita 2025 verður haldinn þann 2. apríl 2025.