Reitir og Þarfaþing undirrita samning um byggingu Kringlureits
Reitir fasteignafélag hf. og Þarfaþing hf. hafa skrifað samning um alverktöku vegna byggingar Kringlureits. Þarfaþing mun annast hönnun og byggingu á fullbúnu íbúðarhúsnæði og bílageymslu á þessu nýja borgarhverfi í hjarta Reykjavíkur. Samningurinn nær til uppbyggingar á 170 íbúðum í fyrsta áfanga verkefnisins en heildarfjöldi íbúða verður um 420.

Hin nýja íbúðabyggð við Kringluna byggir á metnaðarfullu skipulagi og samræmdum skilmálum innan hverfisins. Lögð verður áhersla á umhverfisvæna byggð og er skipulag hverfisins unnið samkvæmt BREEAM Communities-sjálfbærnistaðlinum. Góðar samgöngur þar sem akandi, hjólandi og gangandi er gert jafnhátt undir höfði og fjölbreytt þjónusta mun einkenna hverfið.
Frá vinstri til hægri, aftanverð röð: Unnur Erla Jónsdóttir, Aníta Auðunsdóttir, Arnar Skjaldarson, Birgir Þór Birgisson, Ævar Sveinn Sveinsson, Sólveig Sigurþórsdóttir.
Fremri röð: Guðni Aðalsteinsson, Eggert Jónsson
Hönnun verkefnisins er innblásin af gömlu Reykjavík og leitast verður við að skapa metnaðarfullar og glæsilegar byggingar sem njóta sín í fallegu umhverfi, og hámarka notagildi íbúða til að nýta útsýni, birtu og staðsetningu til fullnustu.
Samningsfjárhæð vegna verksins nemur rúmum 10 milljörðum króna og áætlaður framkvæmdatími er fjögur ár.